Skip to main content

Eftirfarandi er skýrsla stjórnar Iðnsveinafélags Skagafjarðar fyrir starfsárið 2015-2016 sem Björgvin J. Sveinsson flutti á aðalfundi félagsins þann 13. maí 2016:

Þetta starfsár hefur verið óhefðbundið að nokkru leyti, eða vegna þess að á árinu 2015 átti félagið 50 ára afmæli sem við héldum upp á á haustdögum en vegna mikillar óvissu á fyrri hluta ársins í kjaraviðræðum og yfirvofandi verkfalla, var ákveðið að fresta afmælishófinu fram á haust.

Á árinu var haldinn einn félagsfundur, 5 stjórnarfundir, 1 trúnaðarráðsfundur, einn fundur í sjúkra- og styrktarsjóði auk þess sem formaður átti nokkra fundi með öðrum stéttarfélaögum á svæðinu og með fulltrúum Samiðnar.

Þegar við vorum hér síðast fyrir tæpu ári á aðalfundi, stóðu yfir kjaraviðræður á milli Samiðnar og SA og var kominn nokkur harka í viðræðurnar og stefndi allt í verkföll, en sem betur fer sluppum við frá því og var skrifað undir kjarasamning 22. júní 2015. Við héldum síðan kynningarfund á samningnum hér á Kaffi Krók 8. júlí og fengum Jóhann Sigurðsson varaformann Samiðnar og formann Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri til að koma og kynna fyrir okkur samninginn. Þetta var mjög góður og fróðlegur fundur.  Var boðið upp á súpu og brauð og mættu á milli 15 og 20 manns á fundinn. Kosningar fóru svo fram rafrænt og lágu niðurstöður fyrir þann 15. júlí. Voru samningarnir samþykktir, en þátttaka hefði mátt vera meiri. Þessi samningur færði okkur nokkuð góðar kjarabætur eða hækkun á töxtum um 42.000 kr. á árinu 2015, um 5,5% á árinu 2016 og 4,5% á árinu 2017 og 3% 2018.

Miðstjórn Samiðnar var á ferð um landið í septembermánuði til að hitta stjórnir félagana og ræða við þær um starfsemina og samstarfið við Samiðn. Farið var ofan í hvernig ný gerðir kjarasamningar væru að koma út fyrir þetta svæði og hvernig atvinnu ástandið væri á svæðinu. Farið var yfir menntamál Iðnaðarmanna á svæðinu og voru miðstjórnarmenn ánægðir með starfsemi iðnbrauta FNV. Tjáðum við þeim einnig að ný gerðir samningar gerðu mikið fyrir okkar svæði þar sem flestir sem hér starfa eru á töxtunum einum saman og lítið launaskrið væri á þessu svæði eins og reyndar víðast á landsbyggðinni. Kaffiveitingar og meðlæti var í boði og þökkuðu miðstjórnarmenn fyrir góðar móttökur.

Fyrri hluti haustsins fór síðan í undirbúning fyrir afmæli félagsins sem ákveðið hafði verið að halda 6. nóvember. Félagið varð reyndar 50 ára fann 11. febrúar 2015 en eins og áður sagði voru erfiðir tímar til að fara að halda gleðihátíð þar sem boðað hafði verið til vinnustöðvunar út af tregðu í kjaraviðræðum. En við héldum hér mikla og góða afmælisveislu 6. nóvember. Þar var boðið upp á þriggja rétta kvöldverð og skemmtiatriði fram eftir kvöldi og dans að þeim loknum. Fulltrúar Samiðnar mættu og fögnuðu tímamótunum með okkur og fannst þeim veislan hafa tekist mjög vel og töluðu um að það hafi verið sérstaklega gaman að skemmtiatriðinn skildu vera héðan úr héraðinu og tengdust félaginu eða starfsemi iðnaðarmanna. Báðu þeir fyrir kveðjur til félagsmanna og sögðust hafa átt ánægjulegt kvöld. Þeir færðu félaginu málverk að gjöf fyrir hönd Samiðnar og hefur því verið komið fyrir í orlofshúsi félagsins í Varmahíð.   Ákveðið var að tilefni afmælisins yrði öllum félögum færðar peysur að gjöf með merki félagsins og 50 ára áletrum. Lengri tíma tók að útbúa peysurnar en við reiknuðum með í byrjun., Nú eru allir félagar búnir að fá peysurnar sínar og byrjaðir að spóka sig í þeim og skilst mér að það sé almenn ánægja með þær.

Að venju færði félagið félögunum dagbækur um jólin eins og gert hefur verið nokkur síðustu ár en þær voru í ár vasaútgáfa sérmerkt 50 ára afmælinu.

Í janúar mánuði var boðað til fundar stjórna stéttarfélagana á Norðurlandi vestra þar sem fulltrúar ASÍ þau Halldór Grönvold og Dröfn Haraldsdóttir kynntu átak á vegum ASÍ sem ber nafnið „Einn réttur ekkert svindl“.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands ákvað 7. október s.l. að hrinda af stað sérstöku samstarfsverkefni Alþýðusambandsins og aðildarsamtakanna sem beint er gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi, með sérstakri áherslu á að verja réttindi útlendinga og ungs fólks. Yfirskrift verkefnisins er EINN RÉTTUR – EKKERT SVINDL! Verkefnið fékk einróma stuðning á formannafundi aðildarsamtaka ASÍ 28. október s.l.

Af hverju EINN RÉTTUR – EKKERT SVINDL!

Alþýðusambandið og aðildarsamtök þess hafa á undangengnum mánuðum og misserum orðið áskynja um stöðugt vaxandi vanda vegna undirboða á vinnumarkaði og svartrar atvinnustarfsemi. Helst má líkja ástandinu við stöðuna eins og hún var þegar verst lét á árunum fyrir hrunið 2008. Birtingarmyndir brotastarfseminnar eru einkum með þrennum hætti:

  • Gagnvart útlendingum og ungu fólki í ráðningarsambandi við innlend fyrirtæki, þ.m.t. starfsmannaleigur. Þar sem kjarasamningar eru ekki virtir, launafólk hvatt til að vera í svartri vinnu og ungmenni blekkt til að til að vinna „prufudaga“ eða „prufuvakt“ eða ráða sig „til reynslu“ án launa.
  • Gagnvart útlendingum sem starfa hjá erlendum „þjónustuveitendum með tímabundna starfsemi“ hér á landi. Gjarnan er um að ræða laun og önnur starfskjör sem eru langt undir því sem íslenskir kjarasamningar kveða á um. Um er að ræða fyrirtæki með hefðbundna þjónustustarfsemi, en einnig í vaxandi mæli starfsmannaleigur. Þá er einnig dæmi um  gerviverktöku í tengslum við þessa samninga.
  • Gagnvart erlendum ungmennum við „sjálfboðaliðastörf“ af ýmsu tagi, sem oftar en ekki falla undir reglur vinnumarkaðarins og eru launavinna án þess að nokkur laun séu greidd. Sama gildir um sumt af svokölluðu „starfsnámi“ sem erlend ungmenni er sögð stunda hér.

Þessari brotastarfsemi fylgir ekki aðeins að brotið sé á þeim einstaklingum sem um ræðir, bæði hvað varðar laun og önnur starfskjör og greiðslu iðgjalda sem veita margháttuð réttindi á vinnumarkaði. Henni fylgir jafnframt að fyrirtækin sem um ræðir eru með öllum ráðum að koma sér undan sköttum og skyldum og greiða þannig til samfélagsins því sem þeim ber. 

Að mati þeirra sem gerst þekkja til eru þær aðferðir sem notaðar eru við þessa brotastarfsemi um margt „þróaðri“ og ósvífnari en áður hefur sést.

Þetta verkefni er búið að vera í fullum gangi og er farið að skila árangri nú þegar. Einnig þessu tengdu þá hafa stéttarfélöginn á Norðurlandi frá Eyjafirði til Húnaflóa tekið sig saman og ráðið starfsmann sem ætlað er að sjá um vinnustaðaeftirlit og alla þá umsýslu sem þarf í kringum eftirlitið. Eftirlitsfulltúar verða síðan hjá hverju stéttarfélagi sem aðstoða þennan aðila ef þarf við vinnustaða heimsóknir. Erum við búnir að fara í eina hér á þessu svæði en það var í Depla í Fljótum. Kostnaði við ráðningu starfsmannsins er deilt niður á félögin eftir félaga fjölda, og er kostnaður okkar óverulegur.

Í janúar var svo aftur gengið til kosninga um kjarasamning, nú um samning sem byggður var af svo kölluðu SALEK samkomulagi. En eftir að ASÍ félögin sömdu 2015 höfðu aðrar greinar og mörg önnur félög náð betri samningum og var þetta leiðrétting á fyrri samningi. Þá var í þessu samkomulagi stigið stórt skref í jöfnun lífeyris.  Í samkomulaginu fellst að auka lífeyrir á almennamarkaðnum úr 56% í 76% af meðalævitekjum. Þessir samningar fóru í rafræna kosningu og voru samþykktir með miklum meirihluta enda hrein viðbót við áður gerðan samning.

  1. apríl var svo boðað til 8. þings Samiðnar og fórum við Ingimundur Ingvarsson á það fyrir hönd félagsins. Þetta var ágætt þing, nokkuð hefðbundið og átakalaust. Nokkrir fyrirlestrar voru á þinginu, meðal annars um nýtt vinnumarkaðslíkan, sem verið er að reyna þróa fyrir Íslenskan vinnumarkað unnið upp úr samskonar líkönum frá hinum norðurlöndunum. Þar töluðu þeir Hannes Sigurðsson aðstoðarframkvæmdarstjóri SA og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og skýrðu þær hugmyndir sem væri verið að vinna eftir. Þá talaði Jens Bundvad formaður norrænu iðnaðarmannasamtakana og skýrði út hvernig kerfin væru uppbyggð á hinum norðurlöndunum er þau eru aðeins mismunandi eftir löndum. Þá var Dröfn Haraldsdóttir með kynningu á átakinu „Einn réttur – Ekkert svindl“ og Þorbjörn Guðmundsson framkvæmdarstjóri Samiðnar var með kynningu á breytingum á Íslenska lífeyrissjóðakerfinu sem eru framundan. Tvær ályktanir voru gerðar á þinginu.

Tillaga lífeyrisnefndar að samþykkt VIII. þings Samiðnar um lífeyrismál.
VIII. þing Samiðnar leggur áherslu á að lokið verði vinnu við samræmingu lífeyrisréttinda á opinbera- og almenna vinnumarkaðnum eins og fyrirheit hafa verið gefin um. Þingið ítrekar þá skoðun sína að forsenda þess að lífeyristökualdur verði hækkaður sé að hann verði samræmdur á íslenskum vinnumarkaði. Þingið leggur áherslu á að við útfærslu á hækkun iðgjalds úr 12% í 15,5%, sem samið var um í síðustu kjarasamningum, verði tryggður aukinn sveigjanleiki við starfslok m.a. með opnum möguleika á að hækkunin fari í séreign að öllu leyti eða að hluta. Þingið varar við öllum hugmyndum um að hægt verði að taka hluta af skylduiðgjaldi í húsnæðissparnað. Þingið leggur áherslu á að sátt náist um samspil almannatrygginga og lífeyriskerfisins, tryggður sé skýr ávinningur af því að greiða í lífeyrissjóð og gætt sé hófs í tekjutengingum þannig að hvati sé hjá lífeyrisþegum til atvinnuþátttöku og sparnaðar. Háir jaðarskattar eins og viðgangast á Íslandi gagnvart ellilífeyrisþegum eru til þess fallnir að hamla atvinnuþátttöku.

Tillaga allsherjarnefndar að samþykkt VIII. þings Samiðnar um íslenskan vinnumarkað.
Þing Samiðnar lýsir miklum vonbrigðum með þróun íslensks vinnumarkaðar á síðustu misserum. Mikill innflutningur hefur átt sér stað á ódýru erlendu vinnuafli þar sem starfsréttindi eru ekki virt og laun eru undir markaðslaunum. Færst hefur í vöxt að aðalverktakar ráði til sín erlenda undirverktaka sem koma til landsins með sína starfsmenn, sem starfa hér mánuðum saman án þess að af þeim séu greiddir skattar eða önnur gjöld til þjóðarbúsins eins og önnur fyrirtæki gera. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að mjög erfitt er að fylgjast með hvaða laun er verið að greiða þar sem launagreiðslur fara fram í heimalandinu. Ljóst er að þetta fyrirkomulag eykur hættuna á félagslegum undirboðum og misnotkun á erlendum starfsmönnum. Mikilvægt er að bregðast við þessari þróun með róttækum aðgerðum og fara svipaðar leiðir og gert er í okkar nágrannalöndum þ.e. að færa aukna ábyrgð yfir á aðalverktaka og verkkaupa svo tryggja megi starfsmönnum undirverktaka réttindi íslenskra kjarasamninga og laga. Þing Samiðnar skorar á stjórnvöld að lögbinda ábyrgð aðalverktaka og verkkaupa á skyldum undirverktaka gagnvart starfsmönnum sínum með svo kallaðri keðjuábyrgð eins og þekkist í Noregi. Það er þjóðarskömm að láta það viðgangast að erlent starfsfólk sé misnotað með því að það sé ekki látið njóta kjara- og lögbundinna réttinda. Það er glæpur að misnota fólk og stunda félagsleg undirboð. Þeir sem stunda slíka starfsemi eiga að sæta þungum refsingum.

Nú við tókum þátt í 1. maí hátíðinni með öðrum stéttarfélögum í Skagafirði eins og við höfum gert nokkur undanfarinn ár og sat formaður nokkra undirbúningsfundi fyrir þennan viðburð. Það var ánægjulegt að ræðumaður dagsins var út okkar röðum en hann var Finnbjörn A. Hermannsson formaður Byggiðnar og fyrrverandi formaður Samiðnar. Skemmtiariði voru frá Varmahlíðarskóla og sönghópurinn Sóldísir sungu og auðvitað spilaði Geirmundur af sinni alkunnu snilld undir svignandi borðum með kaffibrauði og kræsingum frá Kvenfélagi Skarðshrepps. Fleira fólk var nú en í fyrra og er þátttakan alltaf að aukast á þessum degi.

Í orlofsmálum félagsins er sama fyrirkomulag og á síðasta ári, þar sem við gerðum samning við Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri um gagnkvæma notkun á húsinu okkar í Varmahlíð og húsi sem þeir eiga á Illugastöðum í Fnjóskadal yfir vetrartímann og einnig höfum við skipt á 4 vikum í sumar og hefur þeim verið úthlutað nema einni í ágúst sem er enn laus. Sama fyrirkomulag er á gistimiðum og hefur verið undanfarin ár, og erum við með gistimiða á Fosshótelin.  Eins og flestir vita eigum við í tveimur íbúðum í Reykjavík ásamt Öldunni-stéttarfélagi og Verslunarmannafélagi Skagafjarðar, en þær eru staðsettar við Ofanleiti og Sóltún, en Aldan sér um útleigu þessara íbúða.

Við erum búnir að klára kjarasamninga og tel ég að við höfum náð í gegn nokkkuð góðum hækkunum á landsbyggðinni þar sem flestir voru að fá greitt eftir töxtunum og launaskrið hefur verið lítið, en umtalsverð hækkun hefur orðið á töxtunum í þessum tveimur samningum sem við höfum samþykkt á þessu starfsári. Atvinnuástand er gott á svæðinu og ekkert atvinnuleysi hjá okkar mönnum og er heldur vöntun á iðnaðarmönnum inn á svæðið eins og reyndar víða á landinu.

Ég vil í lokin þakka stjórnarmönnum, trúnaðarráðsmönnum, starfsmanni og öðrum félögum sem ég hef átt samskipti við á starfsárinu fyrir gott samstarf og vona að það verði svo áfram.

Björgvin J. Sveinsson, formaður.