Skip to main content

Í byrjun júlímánaðar hófst hvatningarátak stjórnvalda í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og aðildarfélög, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands til að vekja athygli á endurgreiðslu virðisaukaskatts og skattfrádráttar vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði og frístundarhús þegar fagmenn vinna verkin.

Með átakinu verða landsmenn hvattir til að beina viðskiptum sínum að innlendri vöru og þjónustu, fjárfesta í viðhaldi húsa sinna og leggja þar með sitt af mörkum til sköpunar atvinnu á Íslandi. Átakið á að sýna fram á að það sé einmitt hagstætt að ráðast í framkvæmdir núna – ekki bíða með það heldur kýla strax á endurbætur ef þörf er á, sökum endurgreiðslunnar og skattafrádráttar. Sömuleiðis er markmiðið með átakinu að vekja athygli á þeirri jákvæðu keðjuverkun sem fer af stað í hagkerfinu þegar þjóðin tekur höndum saman og leggst í framkvæmdir af þessu tagi.

Í vinnslu er auglýsingaherferð sem byggir á teikningum hins landsþekkta teiknara Halldórs Baldurssonar, en hann fékk það verkefni að túlka skilaboðin á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, en þau fela í sér;

·hækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við eigið íbúðarhúsnæði og sumarhúsa í 100% úr 60%

·skattafrádráttur til einstaklinga sem fjárfesta í viðhaldi á eigin húsnæði sem nema allt að 200 þúsund króna lækkun á tekjuskattsstofni hjá einstaklingum og 300 þúsund króna lækkun hjá hjónum og samsköttuðum

·ekki bíða– nú er tíminn til að framkvæma því lítil sem smá verk skipta máli fyrir alla. Blása von í brjóst landsmanna um leið og fólk er hvatt til að koma hlutunum í verk núna.

·“Þín fjárfesting er mín vinna”-Leggja áherslu á veltuáhrif framkvæmdanna – Allir vinna

·hvetja fólk til að hafa allt uppi á borðinu

Öflug auglýsingaherferð

Eins og áður segir er nú í vinnslu auglýsingaherferð til að vekja athygli á málefninu og verður margskonar kynningarefni útbúið. Ber þar hæst sjónvarpsauglýsing sem sýnd verður í öllum helstu auglýsingatímum á sjónvarpsstöðvunum. Þá verður átakið kynnt í blöðum, á netinu, á útiskiltum og með markpósti. Auk þess ætla stærstu fyrirtæki landsins í byggingargeiranum að tengjast herferðinni með því að bjóða upp á sértilboð o.fl. Auglýsingaherferðin stendur yfir frá 8. júlí og út ágúst með stuttu hléi í kringum verslunarmannahelgina.

Vilt þú tengjast „Allir vinna“ átakinu?

Allt efni sem tengist átakinu verður að finna á www.allirvinna.is og eru félagsmenn hvattir eindregið til að taka þátt þannig að sem mestur slagkraftur náist. Við spilum öll stórt hlutverk því fljótlegasta leiðin til að kynna átakið meðal aðildarfélaga er þegar þú áframsendir þennan tölvupóst á sem flesta innan þinna samtaka og hvetur fólk til að vinna saman og koma hjólum atvinnulífsins í gang- þannig vinna allir!

Frétt af vef ASÍ