Í gær fór aðalfundur félagsins fram með hefðbundnu sniði. Engar breytingar urðu á skipan stjórnar, trúnaðarráðs né skoðunarmanna, enda traustir menn við stjórn.
Félagsgjald verður óbreytt 0,85% af öllum launum, en hámarks félagsgjald á ársgrundvelli verður 80.000 kr. á árinu 2026. Hámarkið er 70.000 kr. árið 2025.
Skýrslu stjórnar flutti Björgvin J. Sveinsson formaður félagsins. Starfsárið var á svipuðum nótum og undanfarin ár og einkenndist af nokkuð stífum fundarhöldum formans IFS sem hefur setið í tveimur nefndum á vegum Samiðn fyrir hönd félagsins. Mest hefur vinnan verið fyrir laganefnd Samiðnar.
Rekstur félagsins gekk þokkalega og var rekstrarniðurstaða jákvæð fyrir árið 2024. Án fjármagnstekna og -gjalda var reksturinn í járnum. Fjárhagsstaða félagsins er traust. Fjöldi félaga í árslok 2024 var 92.
Þann 11. febrúar 2025 voru liðin 60 ár frá stofnun Iðnsveinafélags Skagafjaðar og er farið að undirbúa afmælisfagnað sem haldinn verður í haust.
Í fundarlok þakkaði Björgvin formaður, stjórnarmönnum, trúnaðarráðsmönnum, starfsmanni og félögum öllum fyrir samstarfið á árinu.