Embætti landlæknis hefur gefið út leiðbeiningar til aðila sem sinna þjónustu, eftirliti og viðgerðum á heimilum eða í fyrirtækjum.
Gátlisti útsendra starfsmanna vegna COVID-19
Með útsendum starfsmönnum er sérstaklega átt við alla starfsmenn er veita þjónustu við almenning á heimilum þeirra eða í fyrirtækjum.
Þegar hætta er talin á smiti af völdum kórónaveiru (COVID-19) þarf útsendur starfsmaður að:
> Þekkja einkenni COVID-19 sýkingar og smitleiðir veirunnar og kynna sér leiðbeiningar um viðurkennda verkferla, nánari upplýsingar á http://www.landlaeknir.is.
> Einkenni COVID-19 eru: Hósti, hiti, kvefeinkenni, bein- og vöðvaverkir og þreyta, stundum með hálsbólgu. Eins hefur breytingu eða tapi á bragð- og lyktarskyni verið lýst.
> Beita grundvallarsmitgát við störf.
> Upplýsa næsta yfirmann ef grunur vaknar um COVID-19.
Við störf á heimilum annarra eða í fyrirtækjum meðan farsótt geisar er gott að hafa í huga:
> Nota skal hreinan vinnufatnað/hlífðarfatnað á hverri vakt. Ef fatnaður óhreinkast eða mengast ætti að skipta um fatnað.
> Alltaf skal líta á alla hanska sem mengaða og varast að snerta andlit með þeim. Nota skal hreina vinnuhanska eða einnota hanska við hvert verk. Ef ekki er hægt að skipta um vinnuhanska fyrir hvert verk skal að lágmarki gera það ef mögulegt er að þeir hafi mengast, sérstaklega ef hafa mengast með slími frá öndunarvegum starfsmanns eða óþekktum vökvum á vinnustað.
> Þótt engin veikindi séu þekkt hjá starfsmanni eða þeim sem unnið er hjá er rétt að halda sem mestri fjarlægð allan tímann meðan útsendur starfsmaður er á staðnum, best er að enginn annar sé í rými/herbergi þar sem hann er að störfum.
> Starfsmaður skal reyna að koma sem minnst við yfirborðsfleti, s.s. ljósarofa, með berum höndum. Ef það er óhjákvæmilegt ætti að hreinsa hendur fyrir og eftir slíka snertingu.
>> Sjá gátlistann í heild sinni.