Skip to main content

Dagurinn í dag, 1. maí er dagur samstöðu. Dagur þar sem við minnumst baráttunnar fyrir betri kjörum, styttri vinnudegi, jöfnuði og réttlæti á vinnumarkaði og mannsæmandi líf fyrir alla. Það er líka dagur til að líta fram á við – því verkalýðsbaráttan er hvorki búin né úrelt. Hún er jafn mikilvæg og hún hefur alltaf verið.

Inntakið „Við sköpum verðmætin“ minnir okkur á kjarna málsins: það eru handtök launafólks sem halda samfélaginu gangandi. Frá almennum störfum til hjúkrunar-, kennslu- og tæknigreina – það er vinna almennings sem byggir upp hagkerfið, tryggir velferð og skapar framtíð.

Verkalýðsfélög eru sameiginleg rödd okkar. Þau standa vörð um réttindi okkar, sem ekki voru gefin heldur fengin með seiglu, einingu og baráttu. Þegar félagar standa saman – í kjaraviðræðum, gegn óréttlæti eða til að styðja hvert annað – þá eflist samningsstaðan og vald jafnast. Í einingu er kraftur.

En samstaða gerist ekki af sjálfu sér. Hún krefst samræðu, trausts og þátttöku. Þess vegna er mikilvægt að við minnum okkur á, sérstaklega á degi sem þessum, að verkalýðsbaráttan er ekki eitthvað sem aðrir berjast fyrir – hún er okkar allra.

Við sköpum verðmætin. Við eigum rétt á sanngjörnum hlut. Og saman getum við tryggt að rödd okkar heyrist.

Áfram 1. maí – áfram samstaða!